Verðtryggingin blessi heimilið
Það er búið að gera allskonar uppgötvanir í heiminum. Fyrir fimmtíu árum var meira að segja sent ómannað geimfar til Mars. Þrátt fyrir það virðast Íslendingar ekki getað ekki fundið út úr þessu með verðtrygginguna.
Texti: Þorsteinn J.
tv1@tv1.is
Ég fékk útborgað í fyrsta skipti fyrir sendilstarf haustið 1976. Framkvæmdastjórinn rétti mér handskrifaða ávísun með þessari föðurlegu ábendingu:
„Hér eru sumarlaunin og takk fyrir dugnaðinn. Vertu nú fljótur að eyða þessu svo fjandas verðbólgan taki þetta ekki.“ Ég var 12 ára. Þetta er eina tilsögnin sem ég hef fengið um ævina í íslenskri hagfræði.
Fyrsta geimfarið lenti á Mars í júlí 1976. Þá var auðvitað löngu búið að nema land á tunglinu líka. Netið fékk formlega kennitöluna www árið 1989. Þetta verða að teljast þokkalegar framfarir á okkar jarðneska lífi. Samt sem áður botnum við ekkert í íslensku krónunni og íslenska hagkerfinu. Það virðist vera flóknara að gera venjulegu fólki mögulegt að kaupa og eignast húsnæði á Íslandi en að fara út í geim.
Eitt af spariorðunum í íslensku er stöðugleiki. Það er fallegt orð. Óstöðugleiki er síðra því það þýðir að ekkert er stöðugt eða fyrirsjánanlegt og það vekur upp bullandi óöryggi. Ég ólst upp við pólitískt argaþras frá því verðtryggingin kom til sögunnar 1979. Hún var sett á í góðri trú þegar verðbólgan var eins og skrímslin í Netflix þáttaröðinni Stranger things. Hún var sett á lán, lífeyri, námslán og laun, en auðvitað tekin af launum fljótlega svo launþegar færu sér ekki að voða í velmegun. Það hefur verið þráttað um vertrygginguna í íslensku hagkerfi síðan hún fór að sýna sitt rétta eðli og það er keppnisíþrótt á Íslandi að kenna öðrum um, stjórnmálamönnum, embættismönnum, ríkisstjórnum og veðrinu.
Við vitum allt um vandamálið takk. Hver er lausnin?
Hver er lausnin fyrir venjulegt fólk sem er orðið þreytt á að borga af verðtryggðum húsnæðislánum á elliheimilinu. Hver er lausnin fyrir þá sem eru enn að borga af gamla góða verðtryggða námsláninu? Hvað eiga þeir að gera sem fá bara alíslenskt óverðtryggt lán í bankanum af því að greiðslumatið gefur ekki möguleika á öðru?
Er það ekki spennandi á splunkunýju ári að hætta að tala um vandamálið og finna lausn?
Fyrsta verðtryggða íbúðin
Það sem kveikti áhuga minn á þessari óleysalegu flækju um verðtrygginguna, svimandi háa vexti og verðbólgu, var fasteignaauglýsing í nóvember síðastliðnum. Þar var verið að auglýsa íbúð á Melunum sem var fyrsta íbúðin sem ég keypti árið 1996. Mig langaði að segja eignaðist en það kaldhæðni sem allir sannir verðtryggðir lántakendur skilja. Fæstir eignast nokkurn tíma eignina heldur borga hana upp tvisvar eða þrisvar sinnum að minnsta kosti.
Þetta var tveggja til þriggja herbergja snotur hæð um 90 fermetrar. Kaupverðið sem ég gekk að var 5,4 milljónir. Ég seldi seldi íbúðina aftur árið 1999 að mig minnir á 6,4 milljónir. Eftir að ég seldi íbúðina hafði bæst við bílskúr með sem stóð við húsið þannig að heildarstærðin var um 120 fermetrar. Ásett verð í nóvember var 2025 var 102.900.000 milljónir.
Það er auðvitað gott og mikil blessun að eignir auki verðgildi sitt. Ég nenni ekki að reikna út hversu mikil hækkun þetta var í samanburði við launaþróun. Ég óska þeim blessunar sem keyptu þessa íbúð. Þetta er frábær eign, en rosalegt verð. Fasteignaverð hækkar og um leið hækka lánin sem fólk þarf að taka til að kaupa. Greiðslumatið er svo strangt að langflestir þurfa að taka verðtryggt lán. Almennir borgarar eru staddir í einskis mannslandi milli stríðandi fylkinga og viðhorfa sem gætu lagað ástandið: Annhvort sterkari og skýrari efnahagsstjórn eða að leita á náðir Evrópusambandsins og evrunnar. Það verður reist íbúðarblokk á Mars áður en það fæst einhver niðurstaða í þessa þrætu á Íslandi.
Það er þessi verðtryggði óstöðugleiki sem er vandamálið. Það vilja allir glaðir greiða af lánunum sem þeir tóku og standa í skilum, en það vantar almenna sanngirni í þessa útreikninga. Ísland er með ágætlega hæft fólk í stjórnkerfinu og stjórmálunum til að stýra efnahagsmálunum, en það er sama á hvaða takka er ýtt á stjórnborðinu. Það gerist ekkert.
Það er auðvitað glannaleg og næstum óviðeigandi viðlíking að líkja stjórnleysinu við uppnámið og ringulreiðina í stjórnstöðinni í Chernobil kjarnorkuverinu í apríl 1986, en samt. Í sjónvarpsþáttaröðinni sem var gerð 2019 birtist skýr mynd af ástandinu í stjórnherbergi í íslenska hagkerfisins. Það er alveg sama hvaða handfangi er snúið eða á hvað takka er ýtt, íslenska krónan er stjórnlaus og geislavirk.
Úr sjónvarpsþáttaröðinni Chernobyl sem gæti eins verið sviðsmyndin í stjórnherbergi íslenska hagkerfisins. Það er alveg sama hvaða handfangi er snúið eða á hvaða takka er ýtt. Íslenska krónan er stjórnlaus og geislavirk. (Myndefni: Chernobyl, 2019)
Lögin við vinnuna
Ég er gamall diskótekari úr Laugarnesinu og kann bara að setja sömu gömlu plötuna á grammafóninn, lögin við vinnuna: Svona er þetta bara. Þetta hefur alltaf verið svona.
En hver er lausnin?
„Lausnin er að minnsta kosti ekki íslenska krónan. Þetta ástand á sér langa, langa sögu,“ segir Gylfi Magnússon prófessor í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Hann var var einnig efnahags- og viðskiptaráðherra utan þings 2009-2010.
„Íslenska krónan er auðvitað bara afleiðing af því hversu illa okkur Íslendingum hefur tekist að halda utan um okkar efnahagsmál.“
Sp. Það er staðreynd?
„Já, það er einfaldlega staðreynd. Það eru rétt ríflega 100 ár síðan íslenska krónan var skilin frá þeirri dönsku, rétt eftir fullveldið 1918. Þetta er hörmungarsaga. Það hefur alltaf verið meiri verðbólga hér en í nágrannalöndunum og gengi krónunnar ýmist verið fellt eða hún sokkið. Við klipptum tvö núll aftan af íslensku krónunni 1981. Það var nánast táknrænn gjörningur. Það breytti í raun og veru engu efnislega.“
Sp. Það leit bara betur út?
„Það leit betur út um tíma en svo eru þessi núll næstum því komin aftur, að minnsta kosti annað þeirra. Það hefur stundum gengið þokkalega í íslenska efnahagskerfinu en íslenska krónan nýtur ekki þess trausts sem hún þyrfti að njóta á Íslandi. Í nágrannalöndunum þá treysta menn galdmiðlinum. Það er ekki þannig á Íslandi.“
Sp. En hver er lausnin Gylfi? Það bendir hver á annan og allir eru með útskýringar en engar lausnir. Á meðan ríkir hér óstöðugleiki sem gerir venjulegu fólki lífið leitt.
„Það er heldur engin einföld lausn á þessu máli. Þegar á heildina er litið er þetta afleiðing ákvarðana í gegnum langa sögu sem fjölmargir hafa komið að. Það eru tvær leiðir til að laga þetta: Önnur væri að vera með þjóðarátak með meiri aga í öllum ákvörðunum, í ríkisfjármálum og á vinnumarkaði.
Þannig væri hægt að byggja upp trúverðugleika hér innanlands. Hin leiðin væri að flytja inn trúverðugleika frá útlöndum og skipta um gjaldmiðil, taka upp evru. Það hefur kosti og galla og er mjög flókið mál. Ísland þyrfti að ganga í Evrópusambandið fyrst og um það eru mjög skiptar skoðanir eins og fólk þekkir.“
Ég er kominn heim með Bubba
Það gæti kannski verið að lausnin liggi í nýjustu tækni og vísindum. AI alheimsandinn er mjög í tísku nú um stundir og þessi eilífðarvél hefur skoðun á öllu, líka verðtryggingunni. Hún getur reyndar verið varasöm gervigreindin. Þegar vinur minn spurði hana um daginn að því hver væri frægasta setningin í lagi eftir Bubba Morthens var svarið: Ég er kominn heim.
Fyrst þessi alheimsandi ruglast léttilega á Bubba og Óðni Valdimarssyni, er rétt að setja fyrirvara á allar útskýringar eilífðarvélarinnar á verðtryggingu. Spurningarnar til gervigreindarinnar voru tvær:
Hvað er verðtrygging?
„Verðtrygging þýðir að fjárhæð (oftast lán eða sparnaður) er tengd við verðbólgu, yfirleitt með neysluvísitölu (VNV).
Markmiðið er að varðveita raunvirði peninga yfir tíma.
Hvernig virkar þetta?
- Þegar verðbólga hækkar → höfuðstóll verðtryggðs láns hækkar.
- Þegar verðbólga lækkar → höfuðstóll getur lækkað (sjaldgæfara).
- Vextir eru oft lægri en á óverðtryggðum lánum, en höfuðstóllinn breytist.
Verðtryggð lán
Kostir
- Lægri nafnvextir.
- Jafnari greiðslubyrði til skemmri tíma.
Gallar
- Höfuðstóll getur hækkað verulega til lengri tíma.
- Getur tekið langan tíma að borga niður raunverulegan skuldahalla.
Verðtryggður sparnaður
- Sparnaðurinn heldur kaupmætti sínum.
- Oft notaður í langtímasparnaði (til dæmsi lífeyrissparnaði).
Stutt samanburðaryfirlit
- Verðtryggt: Vernd gegn verðbólgu, breytilegur höfuðstóll.
- Óverðtryggt: Fastur höfuðstóll, oft hærri vextir og sveiflukenndari greiðslubyrði.
Viltu að ég útskýri þetta nánar út frá húsnæðisláni, bílaláni eða sparnaði?“
Nei, alls ekki. Við vitum hvernig þetta virkar eða virkar ekki.
Sp: En er verðtryggingin góð?
„Stutta svarið: Það fer eftir aðstæðum og markmiðum. Verðtrygging er hvorki „góð“ né „slæm“ í sjálfu sér — hún hentar sumum betur en öðrum.
Verðtrygging getur verið góð ef:
- þú vilt lægri mánaðarlega greiðslubyrði til að byrja með
- þú ert með langt lán (t.d. húsnæðislán) og þarft stöðugleika
- tekjur þínar hækka líklega með tímanum (t.d. samhliða verðbólgu)
- þú vilt minni skammtímasveiflur í greiðslum
Verðtrygging getur verið slæm ef:
- þú vilt borga lánið hratt niður
- þú þolir illa að höfuðstóll hækki
- verðbólga er há eða óstöðug
- þú vilt fullan fyrirsjáanleika í skuldinni sjálfri
Algengur misskilningur „Ég borga alltaf meira en ég tók að láni.“ Það er ekki endilega rétt — en raunverð skulda helst, jafnvel þótt nafnverð hækki.“
Þetta er sæmilega skýrt.
Raunverð skuldar helst, alveg sama hvað lántakandi borgar mikið. Elsku verðtryggingin blessi heimilið. En hver er lausnin?
Það er mjög áhugavert að byrja nýtt ár á spurningu sem 17 ára stúlka spurði fjármálaráðgjafa á visir.is 30.desember.
„Hvernig eigum við unglingar að geta keypt okkur fasteign í framtíðinni? Þessar tölur hækka næstum með hverjum degi. Lagast þetta? Hvenær þá? Og hvernig?“
Svar Björns Bergs Gunnarssonar fjármálaráðgjafa er langt og ítarlegt, föðurlegt á köflum. Hann útskýrir stöðuna á markaðnum, háu vextina, leiðir til sparnaðar, allt gott og blessað. Lokaorðin eru líka táknræn fyrir það ójafnvægi og óvissu sem þetta laskaða hagkerfi hefur boðið upp á síðan 1918:
„Þú getur lítið í umhverfinu gert, vöxtum og verðlagi. En þú stýrir þínum persónulegu fjármálum. Gangi þér vel!“
