Á næturvakt í öllum heiminum

11.janúar 2024. María Björk Ingvadóttir og Ómar Bragi Stefánsson stóðu fyrir utan hús sonar
síns, og tengdadóttur í West Village. Skemmtiferð til NY var hafin. Henni lauk tveimur dögum síðar á
gjörgæsludeild Wyckoff Heights Medical Center, þar sem María barðist fyrir lífi sínu.

Texti: Þorsteinn J.
Ljósmyndir: Ingvi Hrannar Ómarsson
Ljósmyndir í stúdíói: Þorsteinn J.

María Björk fann fyrir flensueinkennum fyrsta daginn í Brooklyn. Hún fór og keypti  Thereaflue, Severe cold & Cough meðal á 12.59 dollara til að hrista úr sér flensuna fljótt og örugglega. Daginn eftir var hún sínu verri og versnaði stöðugt. Ómari Braga manninum hennar leist alls ekkert á blikuna og eftir að hafa ráðfært sig við Guðrúnu Eiríksdóttur tengdadóttur og lækni í fjölskyldunni, var María keyrð á heilsugæslu. „ Ég talaði tóma vitleysu og vissi ekki hvar ég var. Mér fannst ég vera að klippa heimildarmynd sem ég var að vinna að á þessum tíma. Ég sagði aftur og aftur við Ómar, að ég væri upptekin að klippa þessa mynd. Hann svaraði skilst mér því ég man lítið eftir þessu: „María mín, þú ert ekki að klippa neina mynd.“ „Jú, víst“ sagði ég. „Þá var ég komin með 40 stiga hita.“

Hitinn fór mest í 41,5 stig.

María Björk Ingvadóttir er 65 ára 

Framkvæmdastjóri Félagsráðgjafafélags Íslands, áður framkvæmdastjóri sjónvarpsstöðvarinnar N4, fréttakona á RÚV, frístundastjóri í Skagafirði, stofnandi Kaffi Króks

Eiginmaður: Ómar Bragi Stefánsson

Börn: Stefán Arnar, Ingvi Hrannar og Ásthildur

Foreldrar: Sólveig Jónsdóttir og Ingvi Rafn Jóhannsson

Stefnumót við dauðann

María Björk Ingavadóttir er landskunnur fréttamaður og félagsráðgjafi. Hún er vanari því að tala við fólk um annarra sögur en sína eigin. En ekki núna. María segist sjálf vera með ódrepandi baráttuþrek, svona manngerð sem gefst ekki auðveldlega upp við mótlæti. Eða hreint alls ekki. Þess vegna voru þetta mjög óvenjulegar aðstæður í New York. Ómar og öll fjölskyldan þurfti að bregðast hratt við skyndilegum óútskýrðum veikindum.

„Já, sem betur fer var mitt fólk í kringum um mig og brást við“ segir María. „Ég var komin algerlega út úr heiminum. Ég var keyrð á heilsugæslu í Brooklyn. Læknir þar skoðaði mig og kom strax með sjúkdómsgreingu: Sepsis.“

María áttaði sig alls ekki á því hvað það var en Chloe Langston, tengdadóttir hennar, vissi hvað klukkan sló. Vinkona hennar hafði veikst úr þessum sjúkdómi fyrir skömmu áður. Þetta er lífshættulegt ástand sem getur skapast af völdum of kröftugs svars ónæmiskerfisins við alvarlegri sýkingu. María var flutt rakleitt með sjúkrabíl á Wyckoff Heights-sjúkrahúsið og á gjörgæslu. Næstu sjö til átta klukkustundir hrakaði henni stöðugt, þar til loks að hún lést. Eða svo gott sem. Það voru sjálfsagt lífsmörk en María fann að hún fór úr líkamanum. „Ég fór inn í svört göng. Þau voru ekki stór, svona álíka og þetta stúdíó sem við erum í núna. Það var fullt af ljósi, stjörnum, endalausri birtu. Skyndilega fann ég fyrir hönd á öxlinni á mér. Ég fann að þetta var Sólveig mamma mín.“

SP: Hvernig fannstu það María að þú varst að deyja? Fara úr þessu jarðneska lífi?

„Það síðasta sem ég man var að ég lá í rúminu á gjörgæslunni með háan hita. Ég fann svo rosalega mikið til. Mér fannst líkami minn vera að brenna. Ég veit ekki hvort ég dó, en ég fór allavegana úr líkamanum, það veit ég. Sársaukinn hvarf allt í einu. Ég fann fyrir mjög miklum létti þegar hann fór fór úr líkamanum. Svo gerðist þetta: Ég fór inn í svört göng, þau voru ekki stór, einsog rýmið í þessu stúdíói sem við erum að tala saman í. Það var fullt af ljósi, stjörnum, endalausri birtu. Skyndilega fann ég fyrir hönd á öxlinni á mér. Ég fann að það var einhver fyrir aftan mig og það kom strax til mín að þetta sé mamma, Sólveig Jónsdóttir. Hún lést fyrir liðlega tuttugu árum. Mamma sagði með sinni fallegu röddu: „María mín, þú ert ekki að koma til mín strax. Þú átt eftir að gera svo margt.“ Það sem gerðist svo næst er að ég finn að ég er að fara smám saman aftur til baka. Það kom aftur þessi nístandi sársauki og ég fann að ég var aftur komin í sjúkrarúmið. Smám saman náðu læknarnir svo tökum á ástandinu og mér fór að batna. En það tók mig tíu daga að komast aftur á fætur og útskrifast. Sú vegferð var allskonar. Stundum gekk vel og stundum hrakaði mér. Það hefur verið mikil barátta að ná bata.“

SP: Þetta voru skýr skilaboð frá mömmu þinni María.

„Já, ég er viss um að þetta var hún. Mér fannst líka skrýtið hvað mér fannst þægilegt að vera komin þarna, vera dáin í raun og veru. Allur sársauki var horfinn. Það var alveg andstætt mínu eðli að gefast upp fyrir sársaukanum. Ég hef alltaf verið alger baráttukona og gefst aldrei upp. Þess vegna var ég svolítið skömmustuleg að fara aftur til baka, að lifa þetta af, og hafa verið sátt við að fara.“

SP: Þú átt við að baráttukonur geri ekki svona, gefist meira segja varla upp fyrir dauðanum! Ekkert rugl.

„Nei, nákvæmlega. Ég fann líka fyrir öðru þegar sársaukinn tók aftur við. Mér fannst eins og það væri hjá mér mannvera sem ég sá ekki. Ég fann fyrir ofboðslega hreinni og tærri orku. Mér fannst þetta vera kona, indjáni, mjög róleg og yfirveguð. Hún hughreystir mig með þessum orðum: „Ég er hérna hjá þér. Þú ert ekki að fara neitt.“ Þá fann ég að ég gat slakað á og hætt að berjast við þennan ógulega sársauka sem heltók mig algerlega.“

SP. Hvað var þetta langur tími María sem þú varst þá ekki í líkamanum?

„Ég veit það ekki, hugsanlega fáeinar mínútur. Það er erfitt að segja. Þetta voru ekki nokkur augnablik, það er á hreinu. Þetta var alls ekki eins og ég færi hratt í lyftu upp á 28 hæð og niður aftur. Þetta var nokkur tími fannst mér.“

SP. Þú varst samt sem áður með lífsmarki? Hvað sögðu læknarnir um að þú hafir farið úr líkamanum?

„Ég spurði aldrei um það í rauninni. Ég var tengt við öll tæki sem til voru á spítalanum eiginlega og sjálfsagt hafa þau sýnt lífsmörk. Ég hreinlega veit það ekki, það væri áhugavert að vita hvort það hafi eitthvað breyst meðan ég varð fyrir þessari reynslu. Það er kannski framhaldssaga að ég fari að spyrja út í það sem reyndur fréttamaður,“ segir María og skellihlær.

Þessi reynsla skilur eftir sig margar spurningar, eins og þessa: Hvað gerir einstaklingur við svona lífsreynslu, burtséð frá því hvort lífið hafi fjarað alveg út í einn stöðugan són í tækjunum á Wyckoff Heights – gjörgæslunni. Það sem kom svo sterkt til Maríu þegar hún var fyrir handan, hinumegin, eða á leiðinni í dauðann, að segja fólki frá þessum skæða skjúkdómi sem Sepsis er. Hún vill kenna fólki að þekkja einkennin og kalla eftir hjálp í tíma. Það er þessi tilgangur sem stundum er talað um, en ekki bara þessi eini tilgangur, því María dregur þessa lífsreynslu saman í þessa fyrirsögn: Það mikilvægasta af öllu er að gleyma ekki að lifa. Lifa núna. Núna strax.

María Björk í sjúkrabílnum á leið á Wickoff Heights-sjúkrahúsið: „Það var allt sett í botn og keyrt um borgina með sírenu og bláum blikkandi ljósum, enda lá það alveg fyrir að ég var í bráðri lífshættu.“

Sepsis

„Sepsis, sýklasótt, er lífshættulegt ástand sem getur skapast af völdum of kröftugs svars ónæmiskerfisins við alvarlegri sýkingu. Sýklasótt er afleiðing þess að sýking hefur dreift sér um líkamann, og hefur áhrif á mikilvæg líffæri eins og hjarta, lungu og nýru. Hún byrjar oftast með staðbundinni sýkingu, til dæmis lungnabólgu, sárasýkingu eða þvagfærasýkingu.“

Heimild: Sepsisfonden

SP. Ég hef aldrei heyrt um Sepsis-sjúkdóminn María, sýklasótt, hvorki fyrr né síðar. Það er líka stundum talað um gamaldags blóðeitrun eins og maður les um í sögubókum. Burtséð frá því þá er þetta bráðdrepandi ástand?

„Stutta svarið er já. Það deyja 11 milljónir manna í heiminum á hverju ári af völdum Sepsis eða sýklasótt, samkvæmt tölum frá Alþjóða heiðbrigðisstofnuninni. Sepsis er ein helsta orsök dauðfsfalla í heiminum í dag. Það er talið að um 50 milljón tilfelli séu á heimsvísu á ári og þar af látist 11 milljón manna. Íslenskar rannsóknir sýna að tilfelli vegna Sepsis hér á landi, sem krefjast gjörgæslumeðferðar, eru rúmlega 200 á hverju ári Þetta er sýking í blóði sem líkaminn bregst stjórnlaus við. Hjartað fer á yfirsnúning og reynir að pumpa blóði. Ég fann vel fyrir því. Þegar það gengur ekki þá lækkar blóðþrýsingur. Hitinn rýkur upp. Kerfið ræðst á sjálft sig í raun og veru og þetta þróast hratt á örfáum klukkustundum, getur leitt til líffærabilunar eða dauða ef ekki er brugðist við strax. Það var fólkið mitt sem í raun og bjargaði lífi mínu með því að grípa inn í atburðarrásina.

Ég á Ómari manninum mínum allt það þakka, honum og fjölskyldu minni, Ingva Hrannari syni mínum sem við gistum hjá, tengdadætrum mínum Chloe konu Ingva og Guðrúnu konu Stefáns Arnars sonar míns. Hún er skurðlæknir í Kristianstad í Svíþjóð og bau brugðust hárrétt við. Foreldrar Chloe eru líka læknar í Bandaríkjunum, Lisa móðir hennar og Bill Langston pabbi hennar eru prófessorar við Standford-háskóla.  Þau voru í stöðugu sambandi þessa tíu daga sem ég var á spítalanum. Þannig að ég var ekki ein í þessu, hvorki hérna megin eða hinu megin.“

SP: Hver eru þá þessi einkenni sem þú fannst fyrir, fyrir utan hraðan hjartslátt og háan hita María?

„Það er oft talað um níu einkenni sem fólk þarf að vera á varðbergi gagnvart. Ég var víst með átta þeirra. Þegar ég kom inn á heilsugæsluna var tekinn lífsstatus, hjartsláttur, blóðþrýstingur, öndun, hiti og súrefnismettun. Þetta var allt farið úr skorðum. Hjartað sló yfir hundrað og tuttugu slög á mínútu, blóðþrýstingurinn var mjög lágur og hitinn mældist 41,5. Ég var sveitt, illa áttuð og rugluð og öndunin var orðin hröð og grunn. Ég var orðin grá í framan, og alveg við hliðina á sjálfri mér ef svo má segja, fyrir utan óráðið og ýmislegt annað. Það er sagt að lífslíkur sjúklingsins með Sepsis minnki um 7% á hverjum klukkutíma sem líður og mér hrakaði ótrúlega hratt.

Sýklalyfjaónæmi er ein alvarlegasta heilbrigðisógn nútímans. Þegar bakteríur verða ónæmar fyrir sýklalyfjum breytast þær úr því að vera viðráðanlegar í að valda lífshættulegum sýkingum sem engin lyf ráða við. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur lýst sýklalyfjaónæmi sem einni af stærstu ógnunum við heilsu og lífsgæði heimsbyggðarinnar á 21. öldinni.“ María

María Björk á gjörgæslu á Wyckoff Heights sjúkrahúsinu. „Mér hrakaði ótrúlega hratt. Mér fannst líkami minn vera að brenna og sársaukinn var óbærilegur.“

Tilviljanir, engar tilviljanir

„Mér finnst líka gaman að tala um tilviljanir sem ég trúi ekki á reyndar. Það eru engar tilviljanir. Við Ómar vorum rétt búin að endurnýja kreditkortið okkar, sem var klár tilviljun, eða alls ekki. Þessu nýja korti fylgdi neyðarnúmer í Danmörku. Ómar þurfti að hringja í það til að fá að vita á hvaða spítala væri hægt að fara með mig. Fyrsta sjúkrahúsið sem okkur var bent á að fara á tók ekki Visa-kort. Ég var hálf meðvitundarlaus í bílnum þeirra Yngva og Chloear og þau ákváðu að fara þá með mig á heilsugæsluna í hverfinu. Þar var ég strax greind með Sepsis. Þá var kallað á sjúkrabíl og ég keyrð á sjúkrahús, slökkviliðið kom líka. Ég veit að ég var með háan hita en þurfti nú kannski ekki slökkvilðið til að kæla mig“ segir María og skellihlær. „Það var allt sett í botn og keyrt um borgina með sírenu og bláum blikkandi ljósum, enda lá það alveg fyrir að ég var í bráðri lífshættu.“

SP: Hvað manstu?

„Eiginlega ekkert. Ég hélt í hendinni á Ingva Hrannari syni mínum og svo var allt sett í gang á gjörgæslu sjúkrahússins. Þarna var farið að slokkna á mér, það eina sem ég man var þessi brennandi sársauki innra með mér. Ástandið var það alvarlegt að Ómar var beðinn um að undirbúa fjölskylduna undir að ég væri að deyja. Stefán Arnar sonur minn þurfti að segja Ásthildi dóttir mínum og Magnúsi þessar fréttir þar sem þau voru á skíðum í Austurríki. Þetta stóð svo tæpt. Ég var lögð af stað í þess hinstu ferð okkar allra en var snúið við á miðri leið, guði sé lof! Ég er svo þakklát fyrir að hafa lifað þetta af.“

SP: Hvað svo, hvað þýðir þessi djúpa reynsla sem þú varðst fyrir í New York. Það eru tæp tvö ár síðan. Hvernig hefur þetta mótað líf þitt María Björk? Þetta er stór spurning, risastór spurning!

„Já, heldur betur stór spurning. Stutta svar er að það er allt breytt. Þegar ég vaknaði upp á sjúkrastofunni á Wyckoff Heights og horfði út, þá fannst mér allt breytt. Allir litir voru sterkari, það var kominn annar litur á allt. Ég heyrði miklu betur. Augu mín sáu öðruvísi. Ég er mjög næm og mér finnst sú næmni fyrir fólki og umhverfi hafa styrkst. Mig langaði svo að flýta mér út til að segja fólki að passa sig, hugsa meira og vera betri við sjálft sig, vera betra hvort við annað. Ég veit að þetta hljómar kannski eins og klisja, en svona var þetta. Það sem þessi djúpa reynsla kenndi mér er þetta: Í guðanna bænum ekki bíða með neitt, gerðu hlutina strax, hvort sem er að hitta fólk sem þú elskar og þykir vænt um, eða lesa bók. Við vitum ekki neitt um það sem gerist á morgun.“

SP: Þú átt við að lifa núna, strax.

„Já. Mér finnst ég hafa lært það. Ég þarf ekki að fara í þennan bekk aftur, að láta bara allt ráðast og hugsa: Æi, ég geri þetta nú bara einhvern tíma seinna. Nú er þetta á hreinu. Ég er að læra að lifa núna. Mig langar líka að segja fólki af hverju það þarf að passa sig í sambandi við Sepsis og eða önnur veikindi. Hlustum á líkamann. Hann er áttavitinn, hann gefur þér allskonar merki, hvort sem það eru líkamleg eða andleg veikindindi. Kúnstin er að hlusta og leyfa líka öðru fólki að koma sér til hjálpar. Ég áttaði mig alls ekki á því að ég væri orðin svona veik. Sem betur fer var Ómar með mér og fullt af öðru góðu fólki, algjörir englar allt í kringum mig sem áttuðu sig á því hvað var að gerast. Ég þurfti að leyfa fólki að hjálpa mér því ég var algerlega hjálparvana í þessum erfiðu aðstæðum. Það eru líka heilmikil eftirköst eftir þessi veikindi, ég finn það. Ég má ekki vera of ströng við mig. Ég hef minna úthlald, ég verð fyrr þreytt, líkaminn segir: Hættu þessu, en hausinn segir oft: „Nei nei, haltu bara áfram þótt þú sért þreytt eða næstum úrvinda.“ Ég man ekki allt sem ég mundi áður, stundum finn ég fyrir smá þoku í höfðinu.

Svo vantar mig stundum þolinmæði þegar ég heyri að fólk er að bulla. Ég leyfði fólki oft að tala tóma vitleysu hér áður fyrr, en núna á ég erfitt með það. Mér finnst svo skrýtið að fólki vilji eyða tíma í rifrildi, eða tóma vitleysu, eitthvað sem skiptir ekki nokkru máli. Svo ég leyfi þá vestfirðingnum í mér að blása aðeins og bið fólk bara vinsamlegast að hætta þessu kjaftæði.“

Upprisan í NY. María og fjölskyldan sem var hjá henni, Ómar og sonurinn Ingvi Hrannar og tengdadóttirin Chole.   

SP: Það fallegt að sjá fyrir sér Sólveigu Jónsdóttur mömmu þína, leggja höndina á öxlina á þér og segja: Það er ekki komið að þér María. Það er mikil ábyrgð var vera send til baka úr dauðanum María?

„Já kannski er það mikil ábyrgð eða bara mikill léttir! Nú er ég klár á hvað ég vil gera, sem er að lifa lífinu og blómstra. Mig langar líka að geta sagt eitthvað gáfulegt stundum, þannig að fólk geti mögulega notað mína reynslu til að breyta til í lífi sínu. Svo langar mig að fara í langa heimsreisu. Þótt ég sé búin að fara víða, þá langar mig að fara út um allan heim. Ef ég get ekki gert það raunverulega, þá geri ég það bara í huganum. Ég man eftir mömmu minni sem átti langafa sem héti Galdra-Finnur. Hann var Vestfirsk goðsögn og göldróttur eins og nafnið gefur til kynna. Sólveig mamma mín ól upp okkur átta systkynin alla daga og svo sagðist hún ferðaðist á nóttunni. Mamma fór útum allan heim að hjálpa fólki í allskonar aðstæðum og ég trúði henni alveg. Mér fannst þetta merkilegt. Ég man eftir því að hafa sagt við hana: „Ertu ekki þreytt mamma mín, við erum átta systkynin sem þú ert að hugsa um alla daga og svo ertu að vinna á næturna líka?“ „Nei“ sagði mamma, „þetta gefur mér aukinn kraft og gleði.“

SP: Hún var sem sagt á næturvakt líka, allar nætur!

„Já, hún var á næturvakt í heiminum og mikil fyrirmynd. Þetta getum við líka gert. Það eru leiðir til að ferðast þótt maður komist ekki í heimsreisu í bókstaflegri merkingu. Það er hægt að fara út um allt í huganum og verða að gagni.“