Sefur þú?
„Svefnleysi er sennilega eitt stærsta heilsuvandamál Íslendinga.“
Dr. Erla Björnsdóttir, 2015
„Svefnleysi er stærsta heilsuvandamál Íslendinga.“
Dr. Erla Björnsdóttir, 2025
Um helmingur allra sem leita til heilsugæslu eru með svefnvanda. En við skulum nú ekki gera mikið mál úr því. Það er þjóðaríþrótt á Íslandi að sofa á verðinum, gera alls ekki neitt fyrr en allt er komið í brimgarðinn. Lausnin á svefnvanda er samt sem áður létt og einföld. Það er þarf ekki breyta neinu, bara öllu. Svo hægt sé að breyta slæmum svefnvenjum þarf að skoða og breyta mörgum litlum hlutum, eiginlega að taka ábyrgð á eigin lífi. Það er allt og sumt.
Ljósmyndir: Gunnar Svanberg Skúlason
Texti: Þorsteinn J.
„Áhrif svefnsleysis er margvísleg einkenni sem við göngum út frá að séu sjálfsagðir hlutir. Ég get nefnt þreytu á morgnana, einbeitingarleysi, kvíða.“
Við skulum byrja á nýjustu tölum úr Austurbæjarskóla. Mælingar sýna að 20-30% fullorðinna á Íslandi eiga við svefnvanda að stríða. Það er ekki allt og sumt. Margir sem eru ekki komnir í alvarlegan svefnvanda, fá samt ekki nægan svefn, en láta sig hafa það.
Sp. Það er gott að hafa eitt á hreinu strax Erla. Hvað eigum við að sofa mikið á hverri nóttu?
„Við þurfum 7-9 tíma svefn. Regla og rútína er það mikilvægasta þegar kemur að svefni, hjá öllum, ekki bara börnum og þeim sem eru komnir í alvarlegan svefnvanda. Það þurfa allir á gæðasvefni að halda. Ég hef lesið ótal viðtöl og fullyrðingar þar sem fólk heldur öðru fram. Það er fræg tilvitnun í Margaret Thatcher, hvort sem hún sagði þetta orðrétt eða fór nákvæmlega eftir þessu í sínu lífi: „Sleep is for whimps, svefn er fyrir aumingja.“ Þetta er ótrúlega lífsseigt enn þann dag í dag. Það er margsannað að ef fólk sefur minna en 7-9 tíma á nóttu, þá er það að vanrækja heilsu sína. Við erum líka að skerða lífsgæði okkar umtalsvert. Stórar rannsóknir sýna að ef við sofum of lítið að staðaldri þá erum við að stytta líftíma okkar. Mér endist ekki tíminn sem við höfum í þetta samtal Þorsteinn til að telja upp allar áhætturnar sem fólk er að taka.“
Þetta er kjarni málsins.
Ég fékk sjálfur áhuga á svefni þegar REM gaf út plötuna Murmur 1983. Fram að því hafði svefninn verið frekar fyrir mér, klár hindrun í því að lifa lífinu. Ég vann í bakaríi með námi í Fjölbraut Ármúla (öðru nafni „Harvard“) og fannst ekkert stórmál að vakna klukkan 04.00 um helgar, þegar ég átti í rauninni að hvíla mig. Það var enginn að standa sig í þá daga ef hann var í minna en þremur vinnum. Kvikmyndin Sleep sem Andy Warhol gerði 1964 fannst mér líka áhugavert viðfangsefni. Hún er rúmar fimm klukkustundir og söguþráðurinn? John Giorno, þáverandi elskhugi Warhol, steinsofandi. Brigitte Bardot átti að vera í aðalhlutverki. Hún var vant við látin og ég hef því miður ekki komið því í verk að horfa á myndina. Það eina sem ég tók sem gefnu var að ef myndin var rétt rúmir fimm tímar, þá væri það hæfilegur svefn. Tónskáldið Max Richter gaf svo út tímamótaverk 2015, Sleep, átta og hálfur tími af ferðalagi sem stendur jafn lengi og góður nætursvefn samkvæmt öllum rannsóknum. Þetta er stórkostleg tónlist, draumkennd og dáleiðandi í senn. Á sérstökum tónleikum Max Richters leggjast áhorfendur fyrir í uppbúnum rúmum í salnum og fljóta með tónlistinni. Það sem kemur í staðinn fyrir okkur tímabundna fólkið er að spila Sleep hátt í stofugræjunum, eða nýju plötuna: Sleep Circle. Ég hef heldur ekki komist á tónleika Richters því eins og allir segja á Íslandi:
Það er svo mikið að gera í vinnunni að áhugamálin verða að bíða.
“SLEEP is my personal lullaby for a frenetic world. A manifesto for a slower pace of existence.”
„Ég hef heyrt um þetta tónverk hans“ segir dr. Erla Björnsdóttir. „Mér finnst mjög áhugavert að hann sé að upphefja svefninn og mikilvægi hans. Tónlist er spennandi leið til vekja áhuga, koma okkur í ró fyrir sjálfan svefninn, eða hugleiðslu og hvíld yfir daginn.“
Ég sit heima hjá Erlu sem býr örskammt frá svefngarðinum eilífa við Suðurgötu. Það er sterk tenging við umræðuefnið, því svefnvandi og vanræksla á hvíld getur haft í för með sér óþarfa styttingu á jarðneska lífínu. Þá spyrja allir: Um hvað mörg ár? Því við viljum frekar semja um skaðann en að horfast í augu við sjálfan vandann.
Það eru tíu ár síðan Erla varði doktorsritgerð sína um svefnrannsóknir við Háskóla Íslands. Hún og margir fleiri hafa talað látlaust um mikilvægi svefns síðasta áratug. Það eru 8 ár síðan Matthew Walker gaf út bókina Why we sleep. En stóra málið er ekki endilega af hverju við þurfum að sofa heldur: Hvers vegna sofum við ekki meira, hvílumst betur? Erla er margoft búin að fá spurninguna: Hvernig svafstu í nótt Erla? Því ef þú ert sérfræðingur á einhverju sviði vilja margir gefa þér góðlátleg ráð og vera um leið vissir um að þú sért sjálfur að fara eftir því sem þú boðar. Ég þekki þetta líka. Ég stjórnaði spurningaþætti í tvo vetur á Stöð 2 fyrir aldarfjórðungi og er ennþá að fá spurninguna: Er þetta lokasvar? Mér finnst það skemmtilegt. Það sýnir að fólk hefur áhuga og vill taka þátt í lífinu, líkt og langflestir sem tala við Erlu Björnsdóttur, hafa raunverulegan áhuga á betri svefni.
„Ég hef bara gaman af því þegar fólk fer að spyrja mig út í svefn í fermingarveislum eða afmælum. Það hafa allir áhuga á svefni og svefnvenjum, sérstaklega ef fólk sefur ekki vel sjálft.“
Sp. Matthew Walker vakti mikla athygli á svefni og svefnvenjum í bók sem kom út fyrir 10 árum. Það liggja allar upplýsingar fyrir. Af hverju hefur ekki meira breyst þegar kemur að svefnvenjum okkar?
„Það hefur auðvitað mikið breyst, ég vil tala um vitundarvakningu um mikilvægi svefnsins. Við vitum meira en á sama tíma sjáum við svefnvanda aukast frekar en að hann sé í rénun. Rannsóknir í heiminum sýna að annar hver maður er ekki ánægður með svefninn sinn sem er mjög alvarlegt mál. Þá erum við ekki að tala um þá sem gætu aukið gæði svefnsins til muna án þess að vera komnir í verulegan vanda. Svefn er rosalega stór grunnur að öllu öðru sem við erum að takast á við í lífinu. Áhrif svefnsleysis eru margvísleg, einkenni sem við göngum út frá að séu eðlilegir og sjálfsagðir hlutir. Ég get nefnt þreytu á morgnana, einbeitingarleysi, kvíða.“
Sp. Þetta er einmitt málið Erla. Það er allt á hreinu þegar kemur að mikilvægi svefnsins. Þetta er mögulega eins og með æfingar sem sjúkraþjálfari setur mér fyrir. Ég geri þær helst ekki, heldur vil ég að sérfræðingurinn lagi þetta á einum eða tveimur tímum?
„Einmitt, það er mjög erfitt að breyta venjum og ósiðum. Við eru föst í þessum hugsunarhætti að einhver annar eigi að laga þetta eða lyf geti bjargað málum. Mér finnst fólk sem kemur til mín í viðtöl og meðferð, eða mætir á fyrirlestrana, vera mjög áhugasamt. En ég veit ekki hversu langt það nær. Það eru ótrúlega margir að mæla svefninn sinn, með armbandsúrinu eða síma. Það er eitt að mæla svefninn og annað að hugsa vel um hann.“

Mér finnst gott að sjá sem sérfræðingur á þessu sviði hvað margir hugsa vel um svefninn. Litlu hlutirnir í daglegu lífi skipta miklu meira máli en hvað við gerum þegar við leggjumst upp í rúm. Það er gríðarlegt áreiti í umhverfi okkar, frá því við vöknum á morgnana og þangað til við förum að sofa á kvöldin.
„Þetta er það sem þarf að gerast. Í fyrsta lagi þarf að auka fræðslu enn meira. Ég útskrifaðist sem sálfræðingur og fékk sáralitlar upplýsingar og fræðslu um mikilvægi svefns. Við þurfum að vera með fræðsluefni um svefn og svefnheilsu á öllum skólastigum. Mér finnst oft gott að taka dæmi um að við byrjum mjög snemma í skóla að læra um mikilvægi þess að hreyfa okkur og nærast vel. En þegar kemur að svefni, þá er ekkert námsefni um svefn. Mér finnst gott að sjá sem sérfræðingur á þessu sviði hvað margir hugsa vel um svefninn. Litlu hlutirnir skipta miklu meira máli en það hvað við gerum þegar við leggjumst upp í rúm. Það er gríðarlegt áreiti í umhverfi okkar, frá því við vöknum á morgnana og þangað til við förum að sofa á kvöldin.
Samfélagsleg umgjörð þarf að vera þannig að við fáum öll okkar hvíld, börn og fullorðnir. Fyrirtæki þurfa að virða jafnvægið milli vinnu og einkalífs, vera ekki að trufla starfsfólk utan vinnutíma. Það er hægt að búa til fyrirtækjamenningu sem ýtir undir að við séum úthvíld og afköstum meira, skima markvisst fyrir svefnvanda starfsmanna. Svefnleysi og ónóg hvíld er dýrasta heilsufarsvandamál fyrirtækja. Um helmingur allra sem leita til heilsugæslu eru með svefnvanda. Það er mikil áskorun. Við þurfum að vera með úrræði í boði, lyfjalaus úrræði og verkfæri sem duga til lengri tíma. Það þarf hver og einn að finna út úr því hvaða ráð eru best til að ná hvíld og minnka streitu. Góð svefnheilsa kemur ekki af sjálfu sér. Við þurfum að sinna henni og huga að henni, þannig uppskerum við.“
Það er alltaf verið að skamma börn og unglinga þegar kemur að svefnvanda. Við fullorðna fólkið erum oft litlu skárri, frekar slappar fyrirmyndir hreinlega. Það er auðvitað betra að kenna öðrum um vandann; veðrinu, Peningastefnunefnd Seðlabankans, skólakerfinu, Jesús Kristi, eða bara einhverju öðru. En svona stendur þetta: Ef við byrjum að taka yfirdrátt á svefninn, þá er það vaxtakostnaður sem við finnum sannarlega fyrir á eigin heilsu.
Sp: Ég ber sem sagt ábyrgð á eigin lífi Erla, þú ert að segja það?
„Það er kjarni málsins.“


Sp: Hvað getum við þá gert strax?
„Stóra samhengið er þetta finnst mér. Það er ekki eitthvað eitt sem þarf að breytast. Til að breyta slæmum svefnvenjum þarf að skoða og breyta mörgum litlum hlutum. Þetta er ekki átak sem stendur í viku eða tvær vikur. Við þurfum að setja svefn og hvíld í forgang í lífinu. Ég horfi á þetta á heildrænan hátt. Það eru augljóslega 24 tímar í sólarhringnum. Við þurfum að sofa í 7-9 tíma til að vera við góða heilsu og líða vel. Hvernig ætla ég að forgangsraða þannig að ég gefi mér rými fyrir svefninn? Ég hef fullan skilning á því að margir eru mjög uppteknir, vinna langan vinnudag. Það eru allskonar hlutir og skyldur sem við erum að sinna. En ef við klípum af svefninum þá borgum við alltaf fyrir það að einhverstaðar. Við römmum svefninn inn með því að fara að sofa á svipuðum tíma, vakna á svipuðum tíma. Á kvöldin hjálpum við líkama og heila til að byrja að róa sig fyrir svefninn. Á morgnana viljum við keyra okkur í gang. Þá þurfum við að passa okkur á gerviorku, eins og koffíni. Ef við viljum góðan nætursvefn þá sleppum við kaffi eftir hádegi. Nikótín er líka örvandi, áfengi er afleitt svefnmeðal, og hreyfing hefur jákvæð áhrif á svefninn. Þetta er sáraeinfalt að mörgu leyti. Við þurfum hvert og eitt að taka ábyrgð, finna leiðir til að draga úr streitu. Það er einfalt að skoða hvernig jafnvægið er milli nærandi og tæmandi athafna í lífinu. Ef ég vakna með fullan tank, tæmi hann svo stöðugt yfir daginn án þess að fylla á hann, þá verð ég bensínlaus einhverstaðar. Þetta er stóra vandamálið í nútíma samfélagi.“
Sp: Þú ert þá að segja Erla að við verðum að fá áhuga á þessu. Kominn tími til?
„Já, það er alveg skýrt. Góð svefnheilsa kemur ekki að sjálfu sér, við þurfum að sinna sjálfum okkur og þannig uppskerum við.“
Sp: Lokasvar?
„Já, algerlega.“